|
|
...Ekki reyna að mótmæla eftirfarandi:
föstudagur, nóvember 11, 2005
Mér fannst súkkulaðibitakökur góðar. Mér fannst þær sérstaklega góðar ef ég fékk kók í gleri með. Takið eftir hvernig ég set þetta í þátíð. "Mér fannst", "ef ég fékk". Það þýðir að þetta er liðin tíð. Núna finnst mér súkkulaðibitakökur ógeðslegar, sérstaklega ef ég fæ kók í gleri með. Afhverju? Afhverju þessu umskipti?
Marta líffræðikennari er svarið.
Í dag kom hún í tíma, vel vitandi af dálæti mínu á þessu tvennu, vopnuð. Hún var vopnuð mínum bestu vinum, súkkulaðibitaköku og tveggjalítrakók.
'Komdu hingað' sagði hún. Ég fetaði mig nær henni og fyrr en varði svipti hún hulunni af risastórri súkkulaðibitaköku og tveggjalítrakókinu. Ég grét innra með mér af gleði. Hvað hafði gerst? Var Marta að gera þetta af einskærri góðvild? Hvað bjó að baki? Ég leit spyrjandi á hana.
'Fáðu þér súkkulaðibitaköku' sagði hún. Ég hrifsaði þetta tvennt af henni, settist við borðið mitt og byrjaði að háma súkkulaðibitakökuna í mig. Eftir að hafa klárað um 1/4 af henni læddist eilítil gubba upp í kokið á mér. Ég leit athugull á kókið. 'Gæti hún hafa sett eitthvað í kókið?' spurði ég sjálfan mig að. Kókið var svosum ágætt. Þá læddist að mér óþægilegur grunur.
Súkkulaðibitakakan.
Gat það verið? Var ég að fá ógeð á súkkulaðibitakökum? Í afneitun hámaði ég í mig annan fjórðung af kökunni og þá var það staðfest.
Ég var búinn að fá ógeð á súkkulaðibitakökum og gott ef ég var ekki orðinn veikur.
Einmitt þá rak Marta upp roknahlátur og afhjúpaði þetta myrkraverk sitt. Þetta hafði allt verið gert viljandi. Ekki af góðvilja, heldur illvilja. Hún hafði látið mig fá ógeð á súkkulaðibitakökum.
Fölur, saddur og flökurt sat ég og játaði ósigur minn rétt áður en ég hentist fram undir því yfirskini að ég þyrfti að fá mér ferskt loft. Ég rauk inn á klósett, beygði mig yfir skálina og kastaði upp í nafni Mörtu líffræðikennara.
mánudagur, nóvember 07, 2005
Ég var þunnur í gær. Ekkert venjulega þunnur sko. Ég var ofurþunnur. Ojbarasta. Kvöldið áður var ég í tvítugsafmæli Gumma F sem endaði í mestu vitleysu sem sögur fara af. Guðminngóður. Þarna var ég, íklæddur íslenska fánanum með asnalegan hatt á höfði, pilotgleraugu og syngjandi bindi, stofnandi til rifrilda við einhverja stelpu um einhvern Paul Smith... nei, ég veit ekki. Svo var haldið á Prikið. Ég man ekkert eftir hvað gerðist þar. Svo héldum við áleiðis á Pizza King þegar klukkan var að ganga 6. Þar stal ég pítsu af Jónínu, kærustu Jóseps, og hljóp heim.
Svo vaknaði ég ofurþunnur. Jesús Kristur, Jósep og Arafat hvað ég var þunnur. Höfuðverkurinn skar inn að leyndustu afkimum sálarinnar, slappleikin límdi mig við rúmið, maginn snerist við og hélt norður og það eina sem ég heyrði inni í hausnum var "Afsakið hlé". Ég get svo svarið að ég hugsaði um banvænar leiðir út úr þessu. Ojbarasta.
Hvaða djöfuls gagn gerir þessi þynnka eiginlega? Hversvegna eru örlögin að skeyta skapi við geðheilsu mína með þessum ógeðis-sjúkdóm? Hún er ekki nytsöm á nokkurn hátt! Það eina sem hún gerir er að eyðileggja mannlega framkvæmdagleði, þröngva upp innvolsi maga oss og síðast en ekki síst HVETJA TIL SJÁLFSMORÐA!
Bönnum þynnku.
|
|
|