|
|
...Ekki reyna að mótmæla eftirfarandi:
laugardagur, júlí 01, 2006
Jæja, þá kemur ferðasagan. Ég minni á að hún er ritskoðuð vegna þess að óæskilegir aðilar eiga það til að lesa bloggið mitt auk þess sem ég vil halda í þá virðingu samfélagsins sem ég á eftir.
Ég fór til Livorno, Ítalíu, með það í huga að eiga villta nótt á vafasömum klúbbi, umkringdur kynsveltum norskum stúdentamærum í leit að íslenskum strákum. Ástæðan var sennilega sú að ég var í fjölskylduferð í ítalskri villu, langt frá allri siðmenningu og hunraði í vitleysu á borð við áfengi og kvenfólk sem ekki var skylt mér. Ferðin til Livorno hófst stuttu eftir að ég vaknaði eldsnemma um morguninn og dreif mig til smábæjarins Rignano sem hýsti einu lestarstöðina á svæðinu. Á lestarstöðinni, sem samanstóð af sjónvarpsskjá, litlum setuklefa og brautarpalli, mætti ég einnig í fyrsta og alls ekki síðasta skipti höfuðandstæðingi mínum í þessari för, biluðum lestarmiðasjálfsala. Eftir heimlikið þref og hjálp frá ítölskum ellilífeyrisþegum komst ég að því að ég þurfti að kaupa lestarmiðana á bar sem var handan við hornið. Ég gerði það og steig stuttu seinna upp í lest hvers hámarkshraði virtist vera u.þ.b. 30 km/klst. 40 min seinna steig ég út úr lestinni og gekk rakleitt að næsta lestarmiðasjálfsala sem virtist vera u.þ.b. 20 árum háþróaðri en sá fyrri. Gallinn var hinsvegar sá að þessi bjó yfir 100 kílómetra langri röð. Ég lét mig hafa það og beið. Miðakaupin gengu án nokkurra stóráfalla og þá var lítið annað að gera en að bíða. Á meðan ég beið tók ég eftir fjölda annarra miðasjálfsala sem litu eilítið öðruvísi út en höfðu í mesta lagi tveggja manna röð. Ég bölvaði sjálfum mér fyrir að hafa ekki litið í kringum mig og steig stuttu seinna upp í lest merktri “Livrono C. Le”. Þrátt fyrir að hafa stigið upp í fyrri lestina um 10 leytið var ég ekki kominn til Livorno fyrr en um 14. Spennan var byrjuð að magnast þar sem takmarkið um næturlanga drykkju í örmum norskra stúdína færðist nær. Ég leit út fyrir lestarstöðina og fann ekki einn einasta leigubíl né merki um tilveru þeirra. Því sneri ég við, arkaði inn á nálægan bar og fann þar afgreiðslustúlku sem ég vonaði að gæti leitt mig af villu míns vegar í leigubílaleitinni. “Excuse me, could you tell me where I can find a taxi, please?” – Sagði ég á skínandi fínni ensku með breskum hreim. Hún leit spyrjandi á mig og svaraði: “Gambling” – Meðan hún benti á krómaða glimmermaskínu sem skartaði nafninu “WINNER MACHINE!”. Ég áttaði mig á því að hér yrði fátt um svör, brosti og stakk einum skilding í vélina. Ég vann ekki.. Ég fór aftur út og sá þá einn leigubíl sem var nýkominn og bílstórann að búa sig undir síðdegisblundinn. Ég bankaði á rúðuna hjá honum og mætti um leið augnaráði slíkrar vanþóknunar að mér datt snöggvast í hug að leyfa honum að sofa og ganga sjálfur niður í bæ, en það var of seint. Skaðinn var skeður. Ég settist inn og aftur greip þessi eftirvænting mig. Ekki máttu norsku stúdínurnar bíða! “Downtown” – Hálfveinaði ég og bifreiðin þeysti af stað. Á þessum tímapunkti var ég búinn að eiga svo margar “nærri dauða”-lífsreynslur að ég var orðinn ónæmur fyrir þessu ökulagi þar sem enginn vissi lengur hvaða akrein tilheyrði hverjum. Leigubílstjórinn stöðvaði bílinn á torgi sem heitir “Piazza Grande” og hleypti mér út eftir að hafa rukkað mig um 7 evrur. Hann ók burt og eftir stóð ég á líflausasta torgi í heimi. Þarna var enginn. Ekki einn einasti maður. Ekkert. Við þessa sjón slokknaði lífslöngun mín svolítið en ég missti þó ekki allan móð vegna þess að partýið hlaut að vera við ströndina. Ég gekk því af stað í átt að sjónum og fann eina opna bókabúð á leiðinni þar sem ég keypti kort af Livorno. Þegar ég kom að sjónum sá ég enga strönd. Þarna voru hinsvegar tugir risakrana sem enginn stýrði. Reyndar var enginn að vinna neinstaðar, bætinn virtist vera steindauður og þá er kannski rétt að minnast á að þetta var á virkum degi klukkan 15:00. Ég kenndi siestunni um þetta og gekk áfram meðfram sjónum í leit að strönd, ódýru hóteli og norsku stúdínunum. Fyrst kom hótelið í leitirnar og bar það hið vafasama nafn “Hotel Parking lot” “Guð minn almáttugur” – Hugsaði ég “Ef það er ekki til þess að geta sagst hafa gist á Hótel Bílastæði þá gisti ég hérna upp á prinsippið!” Ég fylgdi einhverjum pílum inn í dimmt húsasund sem svo opnaðist í risastór bílastæði með ljótri byggingu í miðjunni. Ég gekk inn í ljótu bygginguna og fékk staðfest að ég hefði fundið Hotel Parking lot. Í móttökunni var blár sófi og í honum lá gapandi köttur sem ég velti fyrir mér hvort væri á lífi. Handan við afgreiðsluborðið sat svo feitur, svartklæddur maður með bauga. Hann hefur sennilega veið um 40 tonn og svaraði einungis í stökum orðum. “Excuse me, how much does a single bedroom cost per night?” – Sagði ég eins kurteisis -og kórdrengjalega og ég gat. “Forty!” – Ropaði hann dimmraddaður út úr sér. “But do you know where the beach is?” – Spurði ég “No” – Sagði hann eins lura -og kæruleysislega og hann mögulega gat. “OK, grassíass” – ældi ég flóttalega upp úr mér og fór beint út án þess að fá kveðjuna endurgoldna eða hafa séð kattarkvikindið bifast. Eftir þessa undarlegu reynslu á Hotel Parking lot ákvað ég að finna ströndina áður en ég pantaði herbergi. Hana fann ég svo eftir stutta leit. Ég kíkti bakvið hnéháan múrvegg og þá duttu mér allar dauðar lýs út höfði. Ströndin var um 50 m2 þríhyrningur þar sem ein hliðin var múrveggurinn, önnur var hátt grindverk og sú síðasta var auðvitað sjórinn sjálfur. Upp við múrvegginn var svo búið að safna stórum ruslahaug sem var fullur af gulu og bláu plasti. Sandurinn sjálfur sást ekki nema 10 sm þykku lagi af rotnandi gróðri væri mokað ofan af honum. Félagsskapurinn samanstóð af gömlum konum sem stóðu á sundbolum u.þ.b. 2 m frá landi og busluðu yfir sig ógeðslegu, olíumenguðu iðnaðarvatni. Allir draumar mínir um villta nótt í Livorno urðu að óstjórnlegri löngun til þess að forheimska sjálfan mig af áfengisneyslu. Sigraður af hörðum dómi falskra eftirvæntinga leitaði ég ráðvilltur að næsta bar sem ég fann blessunarlega áður en ég brast í grát. Ég settist niður, bað um tvöfaldan Havana Club í kók og lauk svo setningunni á “...and keep ‘em coming” eins og sannur atvinnumaður. Eftir að hafa drukkið 7 tvöfalda Havana Club í kók og 4 bjóra var ég búinn að komast að þeirri áfengisblönduðu niðurstöðu að partýið væri í Pisa. Þessi niðurstaða fékkst aðallega með þeirri röksemdafærslu að “partý” stuðlar með “Písa” og að skakki turninn varð ekki skakkur að ástæðulausu. Galvaskur og afar hífaður reif ég mig af stað og byrjaði að leita að leigubíl klukkan 20:00 og hafði þá setið að sumbli í um 5 klst. Leitin tók u.þ.b. 1 og hálfan tíma eða þar til ég fann alla leigubíla Livorno á einum stað, heila 3 talsins, og þar með talinn þann sem hafði keyrt mig frá lestarstöðinni. Af öryggisástæðum ákvað ég að velja annan leigubíl í þetta skiptið af ótta við að ég væri að trufla einhverja fleiri blunda. Sauðdrukinn staulaðist ég að leigubílnum, datt inn í hann og safði leigubílstjóranum á íslensku/frönsku/ítölsku að ég vildi komast á lestarstöðina. Hann keyrði mig þangað og fór sennilega nokkra hringi um borgina áður þar sem farið kostaði núna um 27 evrur sem ég borgaði þegjandi. Þegar inn á stöðina var komið, seint um kvöld, blasti við mér samskonar miðasjálfsali og hafði skapað svo litlar raðir í Flórens og skartaði þessi engri röð. Ánægður með að eitthvað gengi mér í haginn fór ég upp að honum að kaupa mér miða. Meðan ég átti við sjálfsalann komst ég í raun um að á Ítalíu eru tvennskonar lestarmiðasjálfsalar; Þeir sem virka eðlilega og þeir sem eru drasl. Ég var í drasli. Eftir að hafa troðið 20 evru seðil inn í vélina og fengið þrjá mismunandi miða gafst ég upp og tók þá alla með. Til allrar hamingju fór ég svo í rétta lest og bjóst við að sofa ferðalagið af mér. Þá kom lestarvörður og bað mig um miðann minn. Þreyttur, drukkinn og kærulaus otaði ég öllum miðunum að honum án þess að hugsa frekar út í það. Um 30 sek seinna kom í ljós að enginn þessara miða gilti til Pisa og þurfti ég að borga aðrar 10 evrur til þess að hann léti mig í friði. Þegar ég kom til Pisa að nóttu til fylltist ég aftur bjartsýni um að kannski fyndi ég hamingjuna og norsku stúdínurnar hér. Staðráðinn í að nýta þá fyllu sem ég hafði orðið mér út um í Livorno stökk ég út, tilbúinn í brjálað Partý í Písa hjá skakka turninum. Enn og aftur varð ég fyrir vonbrigðum. Það var ekkert partý í Písa. Skakki turninn var skakkur að ástæðulausu. Eina partýið sem ég sá framundan var vonlaus blokkflautuleikur glataðra sígaunkrakka á lestarstöðinni. Vegna alls þessa og almennrar þreytu ákvað ég bara að koma mér inn á eitthvað hótel og sofa úr mér vonbrigðin og áfengisvímuna. 2 klst. seinna var ég enn eigrandi um götur Pisa og sannfærðist um að ekkert hótel væri laust. Að lokum ráfaði ég aftur að lestarstöðinni, fann mér notalega grasflöt, lagðist á hana og gafst upp. Ég veit ekki hversu lengi ég lá þarna á grasflötinni milli svefns og vöku en eftir þónokkurn tíma var potað í fótinn á mér. Hjá mér stóð kona, um 30-35 ára, asísk yfirlitum og bað mig afsökunnar 7 sinnum áður en hún gat spurt mig hvort ég hefði nokkuð leitað að hótelum í Pisa. Ég kvaðst hafa gert það og sagði jafnframt að hún gæti gefist upp núna ef hún væri í sömu pælingum, svo sofanði ég aftur. Þónokkur tími leið þar til aftur var potað í fótinn á mér. Ég opnaði augun og lyfti höfðinu og þarna stóð hún enn. Aftur baðst hún afsökunnar 7 sinnum og spurði mig svo hvort ég ætlaði að sofa hérna alla nótt. Ég sá að hún var greinilega ráðvillt og jafnvel hrædd þar sem lestirnar voru hættar að ganga. Því sagði ég henni að koma með mér á kaffihús sem var handan við götuna og opið alla nóttina. Þar spjölluðum við alla nóttina og ég komst í raun um að hún heitir Cui Hong, er upprunalega frá Kína og ástfangin af gaur sem heitir Bob. Ég leyfði henni að hlusta á íslenska tónlist i iPoddinum mínum og hún gjörsamlega elskaði Sigur Rós. Þegar klukkan var orðin 4 var ég byrjaður að dotta í miðri kínverskukennslu og stakk upp á því að við leggðum okkur inni í lestarstöðinni sem við gerðum. Meaðn ég lá þarna á gólfinu og hún á nærliggjandi bekk komst ég að því að manneskjan hætti ekki að tala nema Sigur Rós væri troðið í eyrun á henni. Þegar ég var orðinn skuggalega hlynntur skerðingu málfrelsis líkt og í Kína ákvað ég að eftirláta henni iPoddinn minn og gat loksins sofnað. Ég vaknaði um 6:30 og læddist burtu til þess að festast ekki í öðrum málfundi um ástir þeirra Bob og Cui Hong. Næsti áfangastaður minn var Flórens og þurfti ég því aftur að glíma við miðamaskínurnar. Í þetta skiptið ætlaði ég ekki að taka neina áhættu og fara í eina af nýtískuvélunum með löngu röðunum en allt kom fyrir ekki. Á lestarstöðinni í Pisa voru bara draslsjálfsalar. Eftir að hafa borgað 17 evrur fyrir miða sem á stíða að ég hefði borgað 6 evrur dröslaðist ég upp í lestina. Til allrar hamingju var ég ekki spurður um miða þarna vegna þess að ég vissi ekkert hvort að minn var réttur. Þegar ég kom til Flórens eftir að hafa fengið að sofa í lestinni fór ég beitn á eina matsölustaðinn sem lestarstöðin hýsti, McDonalds. Þar bað ég um eitthvað morgunfæði sem hét “Muffin DeLuxe” ásamt kókglasi. Muffin DeLuxe var í rauninni vondur hamborgari sem átti nákvæmlega ekkert sameiginlegt með venjulegri muffin. Hvaðan þeir fengu nafngiftina heldur mér enn vakandi um nætur. Eftir máltíðina gerði ég lokaatlöguna að lestarmiðasjálfsölunum en var komið skemmtilega á óvart þegar ég sá einn nýtískusjálfsala án nokkurrar raðar. Ég staulaðist að honum og hlutirnir gengu vel þar til ung sígaunastúlka vatt sér að mér til þess að betla. Eftir að hafa komið því skýrt og skilmerkilega til skila að ég ætlaði ekki að láta neitt af hendi komst ég að því að skapgerð sígauna er tvíþætt.. Þeir eru annarsvegar að betla og ef þú gefur þeim pening þá betla þeir meira. Hinsvegar verða þeir gjörsamlega trylltir þegar þú neitar að gefa þeim, burtséð hvort þú hafi gefið þeim áður. Þessi stelpa trylltist. Hún gargaði einhverja niðursoðna blótyrðasúpu á mig og setti svo punktinn yfir i-ið með því að sýna mér fyrirsjáanlegasta fingurinn ásamt meðfylgjandi orðasambandi. Ég setti upp afar veiklulega vörn en náði þó að garga “mella!” á eftir henni. Á íslensku. Mér tókst svo loksins að kaupa miða til Rignano en þurfti að bíða í nokkuð langan tíma eftir lestinni. Á meðan þeirri bið stóð sofnaði ég nokkrum sinnum, standandi. Lestin kom þó að lokum og flutti mig aftur á byrjunarreit þar sem e´g rétt náði að hlamma mér fyrir utan lögreglustöð og sofna í sólskininu. Ég fer aldrei aftur til Livorno.
föstudagur, júní 30, 2006
Æðislegar tilvitnanir:
Pabbi: "Hey! Fannstu nokkuð bílinn inni í bílnum?" --- Mamma: "Bjössi, hefurðu nokkuð séð bókina mína "I'm not afraid"?" Pabbi (10 sek seinna): "Ha? bíddu.. ha? I'm not afraid við hvað?"
Annars er toppurinn minn farinn. Ferðasagan frá Ítalíu kemur á næstunni. Partý.
miðvikudagur, júní 28, 2006
Ég hef ekki bloggað lengi vegna þess að ég hef ekki nennt því. Ég var líka á Ítalíu. Búinn að gera nokkrar uppgötvanir seinustu daga.
1. Ítalskir karlmenn eru með ljótustu hártísku í heimi sem hefur ekki þróast í 10-15 ár. 2. Ég er moskítósegull. 3. Tarfurinn setti met í að gera mig pirraðan með eftirfarandi setningu: "Þessi hljómsveit *10 sek. þögn* hefur oft verið orðuð við Ísland *10 sek. þögn* en af því hefur ekki orðið." Lærðu að tala ef þú ætlar að vera í útvarpi! 4. Það er víst eitthvað svakadjamm allstaðar úti á landi næstu helgi. 5. Ég er orðinn háður Subway.
Annars kemur mögnuð, en ritskoðuð, ferða-fyllerís-saga frá Ítalíu á næstunni. Skrifaði hana í fluginu á leiðinni heim og hún tekur 14 bls.
|
|
|