|
|
...Ekki reyna að mótmæla eftirfarandi:
föstudagur, apríl 13, 2007
AulahrollurÉg fæ aulahroll að minnsta kosti 10 sinnum á dag núorðið, en það er u.þ.b. 2000% hækkun á aulahrollum frá síðasta ári. Það er ansi mikil hækkun á vísitölu aulahrolla. Flestir aulahrollarnir hafa verið út af kosningaáróðri, og þá sérstaklega Samfylkingarinnar, en núna síðustu daga hefur tala aulahrolla tekið stefnu upp á við eftir að "Ungfrú Reykjavík 2007" var kynnt til sögunnar. Ég hef horft á þetta gjörsamlega alkul heilbrigðrar skynsemi með opnum huga, reynt að finna það góða í þessu og jafnvel reynt að hlæja bara að þessu. Ekkert hefur tekist. Í gær varð ég svo vitni að nýjum dýptum í aulahrollum þegar ég sá hluta úr keppninni sjálfri. Ég fann hvernig heilinn reyndi að þröngva sér út um allar mögulegar rifur á höfði mínu og flýja ofan í klósettið. Þetta var skelfilegt. Ég starði á þetta lamaður af samanteknum ráðum tuga aulahrolla sem streymdu niður hryggjarsúluna. "Er þetta að gerast? Hér á Íslandi?" hugsaði ég í bland við einbeitinguna við það að fallast ekki á kné, fórna höndum og bresta í grát. Stelpur á mínum aldri voru virkilega þarna að staulast um í misefnismiklum múnderingum og málaðar eins og ólíumálverk, í sjónvarpinu. Ég skammaðist mín fyrir hönd þjóðarinnar, ef ekki mannkynsins. Ég er iðulega ekki á móti fegurðarsamkeppnum og slíku, enda er það algjörlega undir einstaklingnum komið hvort hann tekur þátt í svona, en í guðana bænum! Sýnið smá virðingu fyrir sjálfum ykkur, bara smá klassa , elegans eða hvað sem þið kallið þetta. Það er hægt að hafa fegurðarsamkeppnir sem láta mann ekki vilja biðja umheiminn afsökunnar. Plís, og hættið yfirborðskennda þvættingnum í þessum kosningaáróðri. Ég fæ reglulega hjartsláttartruflanir vegna þessara aulahrolla. Uppfærsla: Framsókn er víst með versta slagorðið. Árangur áfram - ekkert stopp. Guð minn góður. Heimsendir er í nánd. Iðrist.
|
|
|