|
|
...Ekki reyna að mótmæla eftirfarandi:
laugardagur, október 07, 2006
Væl er þetta alltaf hreint. Núorðið kemst maður ekki út fyrir hússins dyr án þess að verða fyrir þessu sífellda djöfuls væli. Það má ekki segja nokkurn skapaðan hlut við nokkurn mann án þess að sá hinn sami brotni niður og væli frá sínum dýpstu sálarkimum í leiðingjörnu, oft dulítið farsakenndu, móðursýkiskasti. Ég játa það fúslega að ég opinberast oftast fyrir þessu sífri þegar ég kveiki á imbanum og festist í einhverjum af þessum eilífu raunveruleikaþáttum. Hversu raunverulegir sem þeir kunna að vera læt ég lesandann um að dæma. Þar er bara ekkert sem má segja án þess að heill helvítis vælukjóakór hefji flutning á sínu helsta meistaraverki. Það skiptir ekki máli hvert efni umræðunnar er, vælið er ætíð hið sama. Það skiptir ekki máli hvort það sé móðir einhvers, móðir annars eða besta vinkona hennar, stríð, vinátta eða áhrif kartöfluræktar á plastiðnaðinn. Alltaf endar það í tárum. Nei, ég veit ekki. Kannski er þetta gott. Kannski er það heillavænleg þróun að menn skuli skammarlaust geta svipt hulunni af sínum innstu tilfinningum, grett sig eins og þeir megna og vælt fyrir framan alþjóð - ef ekki fyrir framan heiminn. Kannski er gott að við getum deilt tilfinningum okkar svona ríkulega hvort með öðru án þess að á okkur sé litið sem smellkexruglaða kleppara. Kannski hefur Doktor Phil rétt fyrir sér. Vælum. Vælum eins og við getum. Með hvaða markmið í huga veit ég ekki, það áorkar svosem ekki miklu. Opnum fyrir táraflóðið af minnsta tilefni, sýnum veikleika okkar, grenjum saman í einum grenjukór vegna þess að lífið hefur farið svo harkalega með okkur. Enginn hefur það verr. Vælum. Drekkjum heiminum á ný eftir syndaflóðið. Drekkjum honum í táraflóðinu. Djöfulsins helvítis væl. Bara ef fólk gæti andskotast til þess að halda þessu fyrir sjálft sig. Vælum nú öll saman! Söfnumst saman á Klambratúni tugþúsundum saman með tár rennandi niður kinnar okkar! Vælum okkur áfram! Markmiðið er væl! Árangurinn er væl! Tilgangurinn er enginn!
-og skjótum okkur svo í höfuðið með ljótri haglabyssu. Fokking drasl.
Pæling: Afhverju í andskotans helvítis helvíti spyr afgreiðslupakkið á Subway mig alltaf hvort ég vilji bátinn minn "Hitaðan eða ristaðan" þegar "hitaður" bátur er einfaldlega settur í örbyljuofn? Er ristaður bátur ekki hitaður? Er hann kannski bara settur í eldgamalt brauð? Nei, ég veit ekki.
föstudagur, október 06, 2006
Var að sjá þennan link. Svosem ekkert nýtt. Rosalega eru þeir samt reiðir og fúlir alltaf hreint. Ég er farinn að halda að gleði múslima sé bara steinsofandi.
Ojæja. Lítið sem virðist vera hægt að gera í því.
þriðjudagur, október 03, 2006
Ég ætlaði að kaupa mér MacBook tölvu fyrir skólann og brjóta þannig þá áralöngu hefð mína að kaupa PC-tölvur. Ég og systir mín pöntuðum hvort sína tölvuna og var okkur sagt að þær kæmu eftir 2-3 vikur vegna þess að þær voru uppseldar. 2 vikum seinna hringdi ég og spurði hver staðan á Macbook tölvunum væri, vandræðalegur afgreiðslumaðurinn sagði mér að það væru enn aðrar 2-3 vikur í þær. Vel pirraður beið ég í aðrar 2 vikur og hringdi svo aftur í gær. Þar var mér tjáð að tölvurnar kæmu í þessari viku, jafnvel á morgun og að ég skildi bara hringja þá. Núna áðan hringdi ég svo og þá svaraði lágróma kvenmaður sem rétt náði að gera sig skiljanlega. Eftir að hafa spurt hana um MacBook tölvurnar sagðist hún ekki vita stöðuna og ætlaði að gefa mér samband við einhvern annan. Þá einfaldlega skellti hún á mig þannig að ég fór aftur í biðröðina eftir að fá að tala við þjónustufulltrúa. Í þrjóskukasti beið ég aftur og svaraði þá maður sem sagði mér að verið væri að ferma tölvurnar í skip úti í Kína núna. Þegar ég spurði hann enn á ný hve mikinn tíma það þýddi fékk ég enn og aftur svarið: "2-3 vikur". Núna spyr maður sig hvaða andskotans djöfulsins asnaeyrum sé eiginlega verið að draga mann á. Hvernig geta þau svona lítið vitað um stöðu tölvanna og tímann sem það tekur að fá þær? Þau gera það nefnilega ekki. Ég er byrjaður að halda að þau hafi allan tíman vitað nákvæmlega hve langt var í tölvurnar en ákveðið að í staðinn fyrir að segja í byrjun "1 og hálfan til 2 mánuði" að segja frekar "2-3 vikur" á 2-3 vikna fresti til þess að halda kaupendunum við efnið. Hvurn drunandi daufhygðan djöfulinn á þetta að þýða!? Sitja þau bara þarna uppi í Apple umboðinu og ljúga blákalt að námsmönnum? Djöfulsins hugmyndaþurrð er að geta ekki skellt þessu upp í eina skrattans Bóeing Airbus 747 Extra Túrbó flugmaskínu og ferjað þetta til landsins eins og menn! Búum við á moðerfokking steinöld!? "Ferma skipið úti í Kína"!? Ég trúi þessu helvítis helvíti ekki. Það er ekki bláþörungi bjóðandi að ferja þetta yfir hálfan hnöttinn á 15 hnúta hraða þegar flugvélin var fundin upp fyrir 7 þúsund árum! Hvað varð um alla þessa andskotans framkvæmdagleði sem hefur einkennt kínverjann fyrir 3 krónur á tímann!? Það væri sennilega ódýrara að búa til eina flugvél eða svo og ferja þetta hingað í staðinn fyrir að einhver díselgleypandi svarthol lolli með þetta yfir úthöfin á sínum hraða! Hvað varð um metnaðinn til þess að gera viðskiptavinum sínum til geðs!? Þarf ég að bíða hérna í meira en mánuð eftir tölvunni þegar ég gæti unnið þennan mánuð, flogið til kína fyrir þann pening og keypt þessa tölvu bara andskotans sjálfur!? Djöfulsins andskotans glassúrhúðaða sykurtal sem er dælt inn fyrir vit mín. Upplogunum fullyrðingum dreift á báða bóga eins og smartís og ekki vottur af samvisku finnst með. Grábölvaðir andskotans viðskiptahættir sem einkennast af litlu öðru en naðurtyngdum tilfinningadeyfðum stelpupyppildum sem æla uppúr sér þessum eiturblandna þvætting. Brennum helvítis Apple umboðið! Stjaksetjum þá! Fláum þá! Skerum úr þeim tunguna og höfum til sýnis, öðrum til vítis og ævarandi varnaðar!
|
|
|