|
|
...Ekki reyna að mótmæla eftirfarandi:
föstudagur, febrúar 03, 2006
Ég kom heim um daginn úr skólanum til þess eins að finna pabba að hamast við það að skera niður veggfóður úr loftinu í herberginu mínu, með dúkahníf. Vitanlega rak ég upp stór augu og spurði hann hvað í dauðanum hann væri að gera. Þá skríti hann af kátínu og spurði: "Veistu hvað er undir veggfóðrinu!?" Ég: "Hvað? Pabbi: "Strigi! og veistu hvað er undir honum!?" Ég: "Merkilegt, hvað er undir striganum?" Pabbi: "Fjalir!" Ég: "?????"
Nú er ég búinn að vera með hálft þakið lafandi niður í smettið á mér í tvær vikur og það virðist ekkert ætla að laga sig sjálft.
Systir mín manaði mig svo upp í það að koma með svona eitt quote frá pabba á dag. Það sem kom mér fyrst til hugar sagði hann fyrir nokkrum árum. Pabbi var að fara að skutla Viggu, systur minni, einhvert og mamma sagði: "Hvert ertu að fara?" Pabbi svaraði: "Ég er að fara að skjóta Viggu... ég meina... skjóta viggu... KEYRA!"
Uppfærsla: Pabbi kom inn til mín rétt áðan með rifinn pakka utan af Gilette rakvélablöðum, labbaði upp að mér, henti pakkanum á gólfið og sagði mér að henda honum í ruslið. Svo gekk hann út eins og ekkert hefði gerst. Ég held virkilega stundum að það sé eitthvað að honum.
Ég var að sjá versta þátt sem ég hef séð. Spash.is Núna veit ég ekki hvernig þessi "Partý 101" með hnakkamellunni eða hinn þátturinn þarna með Gillzedlepfhgger(?) eru vegna þess að ég hef aldrei treyst mér til þess að horfa á þá. En ég dembdi mér í þennan Spash.is og ég get með fullri vissu að ég hef aldrei séð lélegri þátt í sjónvarpi. Fyrst sér maður fyrrv. herra Ísland með einhverjum öðrum gaur sem ég veit ekkert hver var að tala. Ég veit ekkert hvaða þvælu þeir voru að gubba upp úr sér en það var greinilega mjög mikilvægt þar sem þeir sátu á þessum djöfuls sófa og töluðu í 15 min. Svo fór eitthvert gangandi húðkrabbameinið að taka viðtöl á Pravda eða svipuðum stað. Hann tók viðtal við eitthvað módel og sló tvær flugur í einu höggi með því að reyna við hana líka. Viðtalið var eitthvað á þessa leið:
Krabbamein: "Hey, hvernig færðu eiginlega svona... þarna...flottan þarna...líkama!?" Sótölvað módel: "É veitiggi... Bra fullt af magaæfingum... lyfta... halda sér í formi.... og þúst... ekki borða nammi" Krabbamein: "Ha? Ertu þá að segja að þú hafir aldrei borðað nammi?" Sólölvað módel: "Júúú... ég er reyndar algjör nammigrís... svo geri ég eiginlega ekki neitt af hinu heldur..." -Vandræðaleg þögn- Krabbameinið sér einhverja röð og tekur ástúðlega utan um módelið "Vá! Það er bara röð í að fá að taka viðtal við þig!" Sótölvað módel: "Já bra... fullt af magaæfingum... og þúst... lyfta... En ég er eiginlega bara svona..." Krabbameinið: "öööhh.. já"
Svo slökkti ég á sjónvarpinu.
miðvikudagur, febrúar 01, 2006
Ég er að reyna að ímynda mér hvað fær mann til þess að gera þetta. Hvernig ræðu heldur presturinn? "Öhh... Hann Jón var... undarlegur... maður. Hans eina ósk var að... kveikja í... öhm... níræðri frænku sinni af einhverjum ástæðum. Hann lagði allan sinn metnað í að kveikja í þessari djöfuls frænku, en vegir Guðs eru órannsakanlegir..."
Á öðrum nótum... Eftirfarandi orð fengu að fljúga við matarborðið áðan: Auglýsing um Brokeback Mountain, mynd sem er í bíó núna, kom í sjónvarpinu. Mamma: "Úúúú, mig langar svo að sjá þessa mynd. Eigum við að fara á hana?" Ég: "Jájá, ég er til" Pabbi: "Bíddu, er þetta ekki einhver hommamynd!?" Ég: "hahahahahahahahahahahaha".
mánudagur, janúar 30, 2006
Pabbi kemur heim og ég er uppi í herberginu mínu að skrifa fyrirlestur. Maðurinn þrammar þunglamalega upp stigann og ég veit um leið hvað býr undir. Hann opnar hurðina, sér mig í tölvunni og andvarpar svo að ég viti alveg örugglega af honum.
"Jæja pabbi, viltu að ég fari að taka til?" (Allt þarf alltaf að vera fantastico á heimilinu) Hann varð um leið pirraður á þessum hroka í mér og svaraði um hæl: "Guðmundur Páll! Það er ekkert að "Taka til". Það er að LAGA TIL!" Ég varð auðveldlega irriteraður af svona fásinnu, sneri mér frá tölvunni og svaraði: "Nú, hver er munurinn?" Hann var ekki lengi að búa til skilgreiningar og sagði að "taka til" væri að taka hlutina bara og setja þá á annan stað en að "laga til" væri að gera herbergið fínt. Ég dró sannleiksgildi þessara fullyrðinga í efa en ég hefði betur látið það ógert.
"Jæja, ef þér finnst svona þægilegt að veltast um í þínum eigin sora, viltu þá að minnsta kosti fara niður með þarna... æ... þú veist.... dósirnar þarna!" "Þú meinar glösin?" "Já!" æpti hann nánast á mig og stormaði út.
sunnudagur, janúar 29, 2006
Samskiptaörðugleikar eru aðalvandamálið á mínu heimili. Ég var í sturtu áðan og heyrði þetta samtal milli foreldra minna sem voru hvort á sinni hæð í húsinu þegar síminn hringdi.
Pabbi: "Vill einhver svara!" Mamma: "Ha? Ætlarðu að svara!?" Pabbi: "Ókei!"
Síminn hélt áfram að hringja og hvorugt þeirra svaraði.
Mamma: "ÆTLAR ENGINN AÐ SVARA!?" Pabbi: "Já, svaraðu þá!" Mamma: "Getur Gummi Palli ekki gert það!?" Pabbi: "GUMMI PALLI! VILTU SVARA SÍMANUM!"
Svo hætti síminn að hringja.
Mamma(vel vitandi að símanum var ekki svarað): "Hver var í símanum, Gummi Palli!" Ég skrúfa fyrir vatnið í sturtunni og svara: "Það veit ég ekki!" Mamma: "Ha!? svaraðirðu ekki!? Afhverju svaraðirðu ekki!?"
...og upp úr þessu hófst 15 mínútna langt rifrildi.
Svo í gær var ég að hjálpa pabba við að leita að fjarstýringunni fyrir sjónvarpið. Í miðri leitinni hrökk upp úr honum: "Viltu athuga undir gítarinn!" Ég veit nákvæmlega ekkert hvaða gítar hann var að tala um en ég gáði undir rúmið og hann virtist sáttur með það.
Djöfull nenni ég ekki að vakna á morgun... nennir einhver að upplifa morgundaginn fyrir mig?
|
|
|