|
|
...Ekki reyna að mótmæla eftirfarandi:
sunnudagur, maí 07, 2006
Sumarið, árstíð apa og bavíana, er gengið í garð. Miðaldra karlar troða sér í níðþröngar hjólabuxur svo umframmagn húðar og fitu kreistast undan þeim. Svona hlaupa þeir og hjóla um bæinn, kófsveittir, másandi og blásandi, berandi fagnaðarerindið útundan handakrikunum. Frábært. Fitubollur drífa sig í magabolina og leyfa okkur hinum að sjá hversu heilbrigðri ístru þær eru búnar að safna yfir veturinn. Svona eigra þær um bæinn og gefa hjólabuxnakörlunum ekkert eftir í svitaframleiðslu. Loks leggjast þær á Austurvöll með hamborgara og kók og dreifa lífrænu skordýraeitri á lóðina. Æðislegt. Smástelpur -og strákar missa vitið. Ham -og vitstola hlaupa þau gargandi í hringi, ekki að neinu sjáanlegu takmarki nema kannski að sprengja hljóðhimnu nærstaddra. Svo vanhelga þau þjóðarhetjuna Jón Sigurðsson með því að leggja sínar skítugu lúkur við styttu hans á Austurvelli. Með það eitt fyrir augum að vera samfélagsleg pest reyna þau svo að klifra upp styttuna festast þar uppi, æpandi koltryllt á hjálp. Ef við erum heppin detta þau niður og þegja áður en hjálp berst. Magnað. Þessir sandbölvuðu sísuðandi helvítis geitungadjöflar byrja að áreita heiðvirt fólk á sinn einstaklega óþolandi hátt. Smettisþefandi flögra þeir inn á mitt morgunverðarborðið og allar kvenkyns lífverur í kílómeters fjarlægð spangóla af hræðslu og hlaupa í skjól. Morgunverðurinn ónýtur. Allt farið til fjandans. Geðveikt.
Allt saman er þetta blessuð Guðsgjöf sem Jesú fórnaði sér fyrir svo við gætum notið 2006 árum seinna. Allt saman er þetta blessað af hinni heilögu þrenningu. Jóðlum lofgjarðir til drottins!
Orð dagsins: "Afkúkunarviðbragð" Lagið: Botleðja - Hausverkun
föstudagur, maí 05, 2006
"Blautt malbik er nýr útvarpsþáttur með þeim Dóra "DNA", Óla T., Bonna B, Danna "Drullu", Sigga "með augað", Einari "eiturlyf" og fleiri með vafasöm viðurnefni! Þeir munu einungis spila það besta og feitasta í Hip-hoppinu og þess á milli slá á létta strengi!"
Eitthvað svipað þessu heyrði ég í útvarpinu á X-inu. Ég er orðinn alveg skíthræddur við að hlusta á þennan þátt af ótta við að einhver þeirra taki það sem móðgun og kyrki mig í gegnum útvarpið. Kannski að maður ætti að fá sér svona viðurnefni? Enginn þorir að fokka í gaur sem er kallaður Gummi "Vöðvaskelfir".
Ójá, Gummi "Vöðvaskelfir" er jafnvel betra en Gummi Hasselhoff.
miðvikudagur, maí 03, 2006
Alveg finnst mér merkileg umræðan um íslenskt mál. Þar eru annarsvegar fólk sem vill vernda íslenskt mál og hinsvegar fólk sem trúir því að málið þróist eðlilega. Núna taka eflaust margir andköf þegar ég segist fyrir það að vernda íslenskt mál. Hvað er eiginlega að fólki sem útvarpar málníðingsskap á borð við "meika", "etta", "eikkur", "eikkað" um netið!? Er það virkilega svo nauðsynlegt að skrifa þetta vitlaust? Vissulega þróast tungumál, og gera það þá aðallega í talmáli. En í guðanna bænum látið ritmálið vera. Skrifið rétt mál! Ekki setja "partý-onum", "lol", "omg" eða slík orðskrípildi inn í ritaðan texta. Einnig eru alltaf einhverjir málvilltir prentvillupúkar sem finna sig knúna til þess að sýna hverja eina og einustu andköf, hik, bið í ritmáli með þrem eða fleiri punktum. Eitt það leiðinlegasta sem ég geri er að lesa slíka texta, gegnsýrða af punktum, gagnslausum orðbjögunum og upphrópunum. Ritaður texti á að líða ljúflega inn fyrir sjónsvið lesandans til þess að hann skilji eitthvað eftir sig. Þegar texti er torskilinn vegna punktanotkunnar og orðstyttinga skilur hann sjaldnast nokkuð eftir sig og dregur stórlega úr trúverðugleika höfundar.
Ef þið viljið ekki gera þetta fyrir mig og mína geðheilsu, gerið það þá fyrir börnin. Það eru þau sem lesa þetta, apa þetta eftir og jafnvel þróa þetta úr í enn ljótara og afskræmdara mál. Stuttu eftir það mun heimurinn farast í sjóðandi hafragraut.
"É var eikkað skoh... þúst... bara úti skoh... þegar ég sá ex-bojfrendinn minn..." Hluti úr raunverulegu íslensku bloggi
þriðjudagur, maí 02, 2006
Jæja, Ágústa Eva er hætt með Frosta! Jess! Núna er tækifærið til þess að giftast henni!
Annars var ég í 10-11 í dag. Þar, í blaðarekkanum, sá ég Vikuna. Framan á blaðinu stóð "Hefur þú lent í dónalegu afgreiðslufólki?" og inni í blaðinu var sennilega einhver umræða um hvað mikið sé um dónalegt afgreiðslufólk. Núna hef ég unnið við afgreiðslustörf á nokkrum stöðum og tel mig því hafa þónokkra reynslu á þessu sviði. Með þá reynslu get ég sagt að ég hef lent í tífalt fleiri dónalegum viðskiptavinum heldur en nokkru sinni dónalegu afgreiðslufólki. Hvað er þessi helvítis Vika að birta þetta djöfuls garnagaul annars? Það vita allir að afgreiðslufólk í búðum, og þá helst stórmörkuðum, þarf að þola mesta kjaftæðið. Er þetta kannski bara fyrir gamla fólkið? Er það ekki bara gamalt fólk sem les þetta þvaður? Gamalt fólk sem alltaf finnst á sér brotið hvar sem það lítur. Alltaf er einhver að ógna því. Alltaf eru unglingarnir ógn við samfélagið og ættu að vera geldir. Svo fer þetta gamla fólk heim á Rav4 bílunum sínum og keyrir á undan mér á 20 km/klst. Hvern þarf að lemja svo að þessi hálfdauðu greppitrýni drattist úr djöfuls sporunum!?
Djöfull hata ég þetta.
mánudagur, maí 01, 2006
Rosalega hljóta æðri máttarvöld að hata mig. Hvernig stendur á því að í hvert eitt og einasta djöfuls skipti þegar maður er að læra undir þessi próf, þá byrjar sólin að skína eins og á Spáni!? Afhverju getur Ísland ekki bara verið eins og venjulega? Maður er gangadi úti í ágætu veðri um miðsumar og allt í einu, eins og þruma úr heiðskýru lofti, kemur snjóstormur! Hvað varð um þetta? Hvar er allt fúttið? Ef þetta væri svona núna væri mun auðveldara að læra. Svo er náttúrulega alveg týpískt að þegar prófin eru búin kemur frost og haglél.
Það er verið að prófa mig. Ég er viss um það.
Foo Fighters - Little Nicky
|
|
|